154. löggjafarþing — 103. fundur,  29. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[15:17]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Hafandi sett fyrirvara við 3. lið þessarar ályktunar þá styð ég hana. Mig langar til að vekja athygli á ályktun Samtaka hernaðarandstæðinga þar sem þau benda á það að hér sé um að ræða kúvendingu á stefnu Íslands um að taka ekki beinan þátt í styrjöldum með fjármögnun á hernaðargögnum eða öðru. Ég vil hins vegar ítreka það sem kom fram hér áðan: Ísland á fullveldi sitt undir því að borin sé virðing fyrir alþjóðalögum og um það snýst að mínu mati stuðningur okkar við Úkraínu í því ólöglega innrásarstríði sem þau eru að eiga við. Ég er á þeirri skoðun að íslenska ríkisstjórnin þyrfti að vera mun háværari á alþjóðavettvangi í því að tala fyrir því að alþjóðalög séu virt og hefði viljað sjá það í þessari pontu og hefði sannarlega viljað sjá og fer fram á það að íslensk ríkisstjórn, í samræmi við okkar stefnu, okkar menningu, okkar gildi og okkar fullveldi, þátttöku í alþjóðasamfélaginu, stígi fastar niður þegar kemur að öðrum ólöglegum innrásarstríðum eins og Palestína er að kljást við þessa dagana.